Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1201, 123. löggjafarþing 564. mál: málefni fatlaðra (starfsmenn svæðisskrifstofu).
Lög nr. 52 19. mars 1999.

Lög um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:
     Meðan á tímabundnum samningi skv. 13. gr. stendur teljast hlutaðeigandi starfsmenn svæðisskrifstofu, sem eru í starfi þegar samningurinn tekur gildi, vera í þjónustu viðkomandi sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar. Í slíkum samningi er félagsmálaráðherra heimilt að framselja viðkomandi sveitarfélagi, byggðasamlagi eða héraðsnefnd allar þær valdheimildir sem framkvæmdastjórar svæðisskrifstofa fara með samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo fremi að starfsmönnum sé tilkynnt hver fari með það vald. Engin formbreyting verður á ráðningarstöðu starfsmanna, þeir eru áfram ríkisstarfsmenn og um laun þeirra og önnur starfskjör fer eftir sömu kjarasamningum og fyrr.
     Nýir starfsmenn, sem ráðnir verða til verkefna er samningur aðila tekur til, skulu ráðnir sem starfsmenn viðkomandi sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar.
     Félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og sveitarfélag, byggðasamlag eða héraðsnefnd hins vegar skulu semja um ábyrgðir sínar og greiðslur varðandi réttindi og kjör starfsmanna.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1999.